Jón Eðvald Malmquist hefur verið ráðinn aðstoðarframkvæmdastjóri Eyktar ehf. frá 1. janúar 2023. Um er að ræða nýja stöðu hjá félaginu.
Mikill vöxtur hefur verið í starfsemi Eyktar á undanförnum árum en meðal helstu verkefna nú má nefna meðferðarkjarna nýs Landspítala, skrifstofubyggingu fyrir Skattinn og Fjársýslu ríkisins við Höfðatorg og byggingu nýrra höfuðstöðva Deloitte við Dalveg í Kópavogi. Einnig eru í byggingu 154 Svansvottaðar íbúðir við Áshamar í Hafnarfirði og seiðaeldisstöð Arctic Smolt í Tálknafirði, auk ýmissa annarra verkefna.
Jón Eðvald hefur starfað hjá Eykt frá árinu 2021 en hafði áður til fjölda ára aðstoðað félagið við lögfræðileg verkefni. Hann vann áður hjá LOGOS lögmannsþjónustu þar sem hann sinnti m.a. málum á sviði verktaka- og útboðsréttar. Þá var hann um árabil stundakennari í verktakarétti hjá Háskólanum í Reykjavík.
Jón Eðvald er lögfræðingur að mennt með réttindi til að flytja mál fyrir héraðsdómstólum og Landsrétti.
„Það er mikill styrkur fyrir okkur að fá Jón Eðvald í þessa ábyrgðarstöðu. Eykt hefur alla tíð lagt áherslu á stuttar boðleiðir og greið og skilvirk samskipti við verkkaupa og hér fáum við mikinn liðsauka í þeim efnum. Við höldum áfram af krafti að þróa innviði fyrirtækisins til að mæta nýjum áskorunum“ segir Páll Daníel Sigurðsson, framkvæmdastjóri Eyktar.